Bloggfærslur mánaðarins, október 2006

Næsta sumar

125_2576

Já. það borgar sig að fara að plana næsta sumarfrí, ekki er ráð nema í tíma sé tekið. 

Stefnan er tekin á Ítalíu, og ætlum við að fara 17 manns saman.  Ég og mín fjölskylda ásamt systrum mínum 3,  og þeirra fjölskyldum, þetta verður þokkalegur hópur.  Við ætlum að leigja á sama stað en þó verða ekki allir saman í íbúð, sem er fínt.  Þá er allavega smá næði en stutt í að blanda geði við aðra. 

Ef Ingi vill fara og heimsækja vínbændur get ég verið með systrum mínum að "chilla" í sólinni - drekkandi sangriu - hljómar  geðveikt vel - ekki satt?

Við erum reyndar að spá í að vera í 4 vikur og gista aftur hjá Rosellu og David sem við vorum hjá í fyrra í Marche héraði (myndin með þessari færslu er úr húsinu þar).  Hún sendi okkur póstkort um daginn og spurði hvort við ætlum ekki að koma aftur til þeirra - í hennar boði ??  Minnir mig á það að við þurfum að fara að skrifa þeim.  Þau búa í Padova, þar sem David er í skóla, en síðasta sumar voru þau um leið og við í húsinu og náðu börnin góðu sambandi við David og léku þau sér mikið saman.  Rosella var æst í að Tanja færi að spila fótbolta við strákana í þorpinu - þeir myndu gapa af að sjá stelpu spila fótbolta og þetta líka góða. 

En það er nóg að gera í vinnunni hjá mér, dagurinn þýtur áfram eins og píla hvern einasta dag. 

Nóg í bili - CIAO  (ein góð í ítölskunni  -  hmmmm)


Skógarkot og rass-síður fótboltabjáni í kábojstígvélum:

Já um helgina forum við í sumarbústað sem Félag Náttúrufræðinga á (staðsetturí Borgarfirði)  og heitir Skógarkot.  Gamall bústaður, ágætlega rúmgóður  enda vorum við 17 manns samankomin í þessum bústað.  Matta leigði þennan bústað og mættum við systur þangað með okkar “karla og börn” og höfðum það gott.

.

En við komum á laugardag, veðrið var frekar óspennandi þannig að við gerðum ráð fyrir meiri inniveru.  Höfðum það mjög gott, ég gerði 2 konar sósur fyrir hópinn og voru báðar mjög góðar, ég var búin að kryddleggja lambakjöt sem var virkilega gott.  Var sötrað á bjór meðan á eldamennskunni stóð – en rauðvín var síðan drukkið með matnum.  Mjög gott rauðvín sem Ingi keypti, enda hafði það fengið góða umfjöllun.  Ástralskt vín sem heitir “The Laughing Magpie Shiraz”.  -  Mæli virkilega með þessu víni.

Eftir mat voru bornir fram dýrindis eftirréttir, kaffi og líkjörar, þannig að við sátum langt fram eftir kvöldi yfir þessu, ásamt ferðapælingum fyrir næsta sumar – Ítalíureisa.  Ef við myndum fara saman allur þessi hópur til Ítalíu, leigja öll íbúð á sama stað, það væri virkilega gaman.  Þyrfti þó að vera örlítið aðskilið, en væri gaman að geta eldað saman og þ.h.  Reynda fann Ingi hús sem við leigðum á Amalfi strönd árið 1992, en leiguverð pr viku á þessu húsi er núna kr. 500 – 600 þúsund, húsið er fyrir 5 manns !!! 

Börnin voru mjög góð, og lynti vel, þau einu sem eitthvað rifust voru systkyni – þannig að Stefanía gat ekki rifist við neinn – kostur eða galli??. 

Þau fóru í heita pottinn, þau voru að lita, leika, útbúa tónlist í tölvunni, spila sjóorustu, boltaleik  og margt fleira.

Ingi, Hilmar og Emil horfðu síðan á teiknimynd þegar við “kerlur” voru farnar að sofa, og var þetta bara fín mynd, sömu framleiðendur og að Teiknimyndinni “Litla lirfan ljóta”. 

Á sunnudag var brunað í bæinn þar sem Tanja átti að keppa fyrir hönd skólans í fótboltamóti.  Hún stóð sig frábærlega vel, og enduðu þær í 2 sæti í sínum riðli, sem er bara assgoti gott.  Fengu sem sagt silfrið – en gullið fór til Álftamýrarskóla – 1 móðir úr þeim skóla var farin að pirra Inga verulega – með bjánalegum innskotum og kvörtunum um leikinn – var að fara að sjóða á mínum – en hún skildi íslensku ekki alltof vel greyið -  rass-síð í geðveikum kábojstígvélum!!

 Síðan var farið heim og eldað, komið börnum í rúmið og horft á DVD mynd sem frúin sofnaði yfir. 

15 ára brúðkaupsafmæli

 

Já, við Ingi áttum 15 ára brúðkaupsafmæli síðasta fimmtudag og ætluðum að gera okkur glaðan dag, með góðum mat, sem við gerðum.  Elduðum gott lambakjöt og meðlæti en ekki var sest að borðum fyrr en kl. 22:00 um kvöldið þar sem börn voru í tónlistartímum og afmæli í Mosó.  En við nutum þess engu að síður að borða og svo var eftirréttur – sem ekki gerist mjög oft – og voru honum gerð góð skil.

En mér finnsta yndislegt að vera búin að vera gift honum Inga mínum allan þennan tíma, auðvitað er lífið svo sem ekki alltaf dans á rósum, en ekki get ég hugsað mér neinn annan mann.  Stundum koma upp skondin atriði með okkur – eins og maður viti hvað hitt ætli að gera áður en það gerir það.  En kannski erum við bara svona samrýmd, enda búin að vera saman í 21 ár núna – og ég er ekki orðin 40 ára.  Ehemm. 

En við bætum okkur þennan dag upp eftir 1 mánuð – barnlaus í London, reyndar verða Kiddi og Magga með okkur – en við verðum svo sem ekki alltaf hangandi saman og verðum í sitt hvoru herberginu – að sjálfsögðu.


Mánudagur 9. október - fyrsta bloggið

Af okkur er allt gott að frétta.  Í gær eftir vinnu sótti ég 2 eldri börnin á æfingu - ásamt því að sækja Erlu á leikskólann. 

Henti þeim heim, sótti Sindra þar sem hann á að mæta í píanótíma.  Á meðan hann var í tímanum fór ég í Skólavörubúðina og keypti kennslubók í nótnalestri, sem við þurfum að fara yfir með honum.  Einhverntíman lærði maður þetta – en það er gleymt og grafið.

Höfðum bara pítu í matinn – en Sindri óskaði eftir því, það var bara ágætt – engin  eldamennska.

Andri gekk frá í og úr uppþvottavél – ekki mjög glaður með það en lét sig þó hafa það.  Fannst mjög óréttlátt að hann skuli þurfa að gera einn.  Tanja fékk hins vegar  að fara út með vinum sínum – en hún var búin að passa Erlu í rúma 2 klst., meðan Andri var með vinum sínum.

Ég hjálpaði Sindra með Móðurmálsæfingu eftir matinn og  lét hann síðan lesa fyrir mig.  Ingi var í búðarleik með Erlu – svakalega gaman.  Hún nær að snúa pabba sínum þvílíkt um puttana sína.   Hann var nú ekki alveg á því að fara í búðaleik – en lét sig hafa það.

Eftir að hafa horft á fyrsta þátt af “Tekinn” var farið í rúmið – sem sagt óvenju snemma, en það er nú gott svona 1 x í viku Hlæjandi

Ég heyrði aðeins í pabba og mömmu í morgun – við verðum að fara að kíkja í heimsókn til þeirra.  Ég veit ekki hvenær við fórum síðast til þeirra.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband