Smá hugleiðing...

Yndislegt veður -  þannig að ég býst við að farið verði í bæinn á eftir, reyndar er Tanja Sif lasin - þannig að spurning hvort hún komi með.

Í gær var afmælisdagurinn hans pabba - sömuleiðis var eitt ár frá því hann dó - ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða.  Sömuleiðis finnst mér hálf óraunverulegt að hann sé farinn, finnst oft þegar ég fer til mömmu að hann sé í herberginu sínu eitthvað að sýsla - eins og hann var vanur - eða að dúllast eitthvað í bílskúrnum. 

Ég ætla að setja inn nokkur minningarbrot um hann svona að gamni....

Mamma algjör skvísa á leið í saumaklúbb, pabbi skutlar henni - brunar síðan heim og byrjar að umturna öllu í stofunni og borðstofunni.  Ótrúlega var hann ánægður með þessar tilfærslur á húsgögnum.   Það var ekki bara ein hilla færð úr stað - ónei - öll húsgögn fengu nýtt pláss - stofan breyttist í borðstofu og öfugt.Þegar frúin kom heim úr saumaklúbbnum sínum - hélt hún að hún hefðu e.t.v. farið inn á vitlausa hæð - nuddaði hún augun aftur til að athuga hvort hún væri farinn að sjá illa - en nei - þarna stóð hennar heitt elskaði - á miðju stofugólfi eldrauður - sveittur og brosandi út að eyrum - og spurði:  Hvernig líst þér á??

-

Tækjadellukarl - Týpískur karlmaður - hann pabbi var með tækjadellu.  Málmleitartæki - plötuspilari -  filmuálestrartæki  - segulbandstæki - ljósritunarvél - polaroid myndavél - litasjónvarp - VHS tæki - veiðistangir - nýjasta týpa af sláttuvél - innrömmunargræja (rammaði inn málverk eiginkonunnar) -   GSM sími -  og undir það síðasta  var hann voða spenntur fyrir að kaupa ferðatölvu og stafræna myndavél - en svo treysti hann sér eiginlega ekki til að fara að læra á svoleiðis tæki - þannig að ekkert varð úr þeim kaupum.   -  Mamma var svo sem ekki alltaf alsæl þegar hann birtist heima með hinar og þessar græjur - sem henni fannst misviturlegar - en lét sig svo sem hafa það. 

-

Þegar ég  var 14 ára og var að vinna í Unglingavinnunni í Kópavogi - ég mætti að sjálfsögðu í þessa blessuðu vinnu  sama hvernig veður var.  Ég man sérstaklega eftir í 1 skipti þá kom pabbi og sótti mig í hádeginu - úti hafði verið rigning - maður var orðin gelgja - og að vera í pollagalla var nú frekar "púkalegt". Ég settist í bílinn hjá pabba - frekar blaut - þegar hann spyr mig "Ertu ekki með neinar verjur?"  Ég roðna - blána - stama - og bara skil ekki afhverju pabbi heldur að ég sé að nota smokka í vinnunni !!   .....en hjá mér var sama-sem-merki  á milli orðsins verja og smokkur.  Fannst þetta vera frekar nærgöngul spurning - næ bara að stynja upp "nei ég á ekki svoleiðis"  Nú - þá verðum við að útvega verjur fyrir þig, sagði hann þá.  Guð minn góður   hugsaði ég - er ekki allt í lagi með þig pabbi - en svo fattaði ég að hann var bara að tala um pollagalla - hef sjálfsagt hlegið hálf móðursjúklega - og pabbi hefur sjálfsagt hugsað - þessar unglingsstúlkur - stundum skil ég þær ekki - fara í mínus ef maður talar um pollaföt við þær!

-

Pabbi var að vinna fyrir herinn uppi í Hvalfirði á sínum tíma. 

Hann átti forláta gulllitað sverð í vínrauðu flauelis slíðri - afar vígalegt - og hékk sverðið á góðum stað heima hjá pabba og pömmu.  Einhverntíman hafði mamma gefið honum þessa græju í afmælis gjöf - og var þessi gripur í miklu uppáhaldi hjá honum, en algjörlega bitlaus.

Afabörnin heimsóttu þau oft og sátu eins og svampar og hlustuðu á sögurnar hjá afa sínum -  síðan fór 1 barnabarnið að leggja saman 2 og 2  - og einn daginn fékk ég  þessa spurningu:  "Hvað drap afi marga í stríðinu með sverðinu sínu??  Pabba fannst þetta vera mjög skemmtilegt og hafði gaman af þessum vangaveltum barnabarnsins.

 -

Pabbi var mikill söngmaður, var í kirkjukór, hann söng afskaplega vel, hann var bráðgreindur og námsfús - og hefði verið gott efni í prest, var fólk jafnvel að gæla við að hann myndi fara í guðfræði.  Að hans eigin sögn hefði hann tónað vel, samið fínar ræður - en hann var e.t.v. ekki alveg nógu trúaður til að gerast prestur.

-

Hann var líka oft að taka upp á því að færa hluti til á laugardags- og sunnudagsmorgnum þegar ég var farin að stunda skemmtanalífið, var nú stundum hálf tuskuleg þegar pabbi vakti mig og bað mig um að hjálpa sér að færa hinn eða þennan skápinn, brosandi út í annað að sjá hve dóttirinn var ekki alveg í flutningahjálparstuði - en ég lét mig þó hafa það. 

-

Pabbi upplifði það að leika í kvikmynd og því hafði hann virkilega gaman af, alveg fram í það síðasta þegar hann sagði hjúkrunarfólki frá því á spítalanum. Hann var fenginn til að leika í kvikmynd Guðnýjar Halldórsdóttur, "Stella í orlofi".  Í myndinni var hópur  Lionsmanna og var pabbi einn þeirra. Dansaði vals við Eddu Björgvinsdóttur og fannst það ekki leiðinlegt.

Eigið góðan Þjóðhátíðardag!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband