Sól og 25° hiti
6.6.2007 | 21:48
Veðrið leikur við okkur hér í París, sól og 25 stiga hiti - fín gola - þannig að okkur líður mjög vel hérna.
Fórum í Lúxembúrgargarðinn í dag til að njóta lísins, keyptum okkur brauð, croissant - bjór og gos - sátum á stólum og nutum lísins. Andri og Erla fóru aðeins og settust upp í grasbrekku sem var á bak við okkur - en eftir stutta stund komu 2 lögregluþjónar og bentu á að þetta væri ekki æskilegt. Andri spurði hvað löggan hefði gert ef hann hefði neitað að færa sig - "Ég sagði að þeir sem færu ekki eftir lögum og reglum í París væru bara skotnir" - hann trúði ekki mömmu sinni - hún bullar stundum dálítið í honum.
Við röltum um garðinn - Erla var nú orðin frekar þreytt á heimleiðinni - en við sáum skemmtilega búð sem selur Barbapapa vöru - og lofuðum við henni að kíkja í hana á morgun og kaupa eitthvað pínu fyrir hana þar.
Við fórum út að borða í kvöld á afskaplega fallegan stað, hann er frá árinu 1906 - og er í Art Nouveau stíl - og er í dag skráður sem sögulegur minnisvarði. Forréttir og eftirréttir voru hreint út sagt frábærir, nautasteikin var góð - þó ekki stórkostleg, ég fékk mér reyndar nautalund með gæsalifur í búrgundarsósu - hún var mjög góð. Þessi staður var með þeim fallegri sem við höfum farið inn á. Kvöldið var yndislegt. Ég set hér inn slóðina á staðinn : http://www.bouillon-racine.com/en/home/index.html
Ég makaði sólavörn á Erlu áður en við fórum af stað í dag - en gleymdi öðrum - þannig að við Tanja erum aðeins rauðar - en þá er bara að maka á sig After sun og Aloe vera geli. Sindri er strax farinn að taka lit - hann er bara ótrúlegur - um leið og sólin fer að skína þá er hann búinn að taka lit.
Hann er svo ólíkur okkur hinum með svo margt - algjörlega aðdáunarverður í svo mörgu. Ef hann er saddur - þá er hann saddur - þá stoppar hann að borða sama hversu gott það er. Hann er meira að segja farinn að biðja um grænmeti á diskinn sinn!! Ingi hefur nú stundum efast um að hann eigi eitthvað í þessu barni - sérstaklega þegar hann kom með yfirlýsinguna "ÉG HATA KJÖT" - þá vildi Ingi nú bara senda hann í DNA próf !!
Við erum búin að ná góðum tökum á GPS tækinu - og er sú græja að verða góður fjölskylduvinur. Eins gott að passa sig á að stilla á tækinu að maður sé fótgangandi en ekki keyrandi - út af einstefnugötum - það er bara snilld ef maður gleymir að skrá að maður sé fótgangandi - þá eru alls konar einstefnugötur sem tækir segir manni að taka aukakrók út af. Ég hefði ekki fattað það ... enda er Ingi kominn með græjupróf á það.
Núna sitja börnin og spila Yatzy - nema Erla liggur á gólfinu að teikna og lita - hún er reyndar að biðja um að fara í bað - Ingi reddar því.
Við vorum ekki búin að keyra inn í tölvuna disk til að geta keyrt inn myndir úr stóru myndavélinni - þannig að við keyrum bara inn myndir úr litlu vélinni - en það sleppur.
Ég ætla að fara og setja inn nokkrar myndir núna á barnalandssíðuna hennar Erlu.
Heyrði aðeins í Hröbbu áðan - þau eru komin á leiðarenda þreytt og voru að fara að fá sér pizzu.
Sólskinskveðjur til ykkar allra frá ferðafólkinu í París
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.