Pabbi minn dó síðasta laugardag - hann átti líka 85 ára afmæli þann dag

Já, hann ákvað að halda upp á afmælið sitt annarsstaðar en liggjandi í sjúkrarúmi horfandi upp í hvítt loft - sem hann var búinn að fá algjörlega nóg af.  Hann var aftur kominn með lungnabólgu og orðinn mjög slappur - en nokkrum dögum áður virtist hann vera að hressast.  Fór meira að segja á fætur og var fluttur á 2gja manna stofu.  Þetta er fljótt að breytast.

Hann var búinn að segja við hjúkkurnar að hann ætli að fara heim á afmælinu sínu - og þegar þær vöktu hann á afmælisdaginn sagði hann að hann myndi halda upp á afmælið sitt annarsstaðar í dag.  Og milli kl. 13:15 og 13:40 dó hann - en á þeim tíma voru Hrabba og Adda  að bruna til hans en hann dó rétt áður en þær komu.  

Auðvitað er maður afskaplega sár og leiður og stutt í tárin þessa dagana - en að horfa upp á hann liggjandi á spítalanum hefur mér fundist óskaplega erfitt.  En alltaf hef ég fengið fallegt gleðibros frá honum í þessi skipti sem ég heimsótti hann.  Hann hefur alltaf þekkt mig og oft og iðulega þegar ég mætti strauk ég honum um vangann eða handlegginn og hann hefur alltaf rumskað við það og brosað sínu blíðasta til mín.  

Í síðasta skipti sem ég sá hann sagði ég við hann "pabbi - ég elska þig"  - sá ég að honum fannst vænt um þessi orð - enda sagði hann það við mig.   Hann var ekki þessi væmna týpa - og svei mér þá - ég held að ég hafi aldrei áður sagt þetta við hann.

Það átti bara ekki við hann pabba minn að liggja og geta ekkert gert nema láta tímann líða, hann hefur alltaf þurft að vera að stússast eitthvað, mála myndir , semja ljóð, endurraða bókunum sínum  eða skipuleggja bílskúrinn - sem sagt - alltaf eitthvað hægt að finna til að vesenast.

Þannig að nú er verið að plana kistulagningu og útför sem á að fara fram í næstu viku.  Ég kem heim annað kvöld og get þá farið að hjálpa til með undirbúninginn. 

Baka fyrir erfidrykkju, fara með mömmu í klippingu, passa Hákon fyrir Hröbbu og Hilmar ásamt ýmsu öðru.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Kristján Kristjánsson, 20.6.2007 kl. 22:45

2 Smámynd: Lauja

Takk Kiddi fyrir það

Lauja, 20.6.2007 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband