Toscana - S-Frakkland - París - Reykjavík
20.6.2007 | 23:08
Þetta er fljótt að líða - þetta blessaða sumarfrí. Við höfðum það gott á Ítalíu - reyndar var ég með hita og drulluveik - lá uppi í rúmi í 30 stiga hita í sokkum - buxum - peysu og með 3 teppi en samt var mér drullukalt!!!!!! En þetta fór úr mér á rúmum sólarhring.
Það var hálf tómlegt þegar Hrabba, Hilmar og strákarnir voru farin, það var mjög gaman að sitja saman og borða kvöldmat - og láta síðan kvöldið líða yfir kaffi, líkjör, og meira kaffi. Krakkarnir náðu mjög vel saman og fannst gaman að vera saman.
Föstudagurinn fór í leti í sundlauginni og sólbað, elduðum pasta og höfðum það gott. Nema frúin lá dúðuð í rúminu að drepast úr kulda.
Laugardagurinn fór í mikla inniveru - enda dó pabbi þann dag - skrítið að síðustu 2 ár hef ég hringt í pabba frá útlöndum og óskað honum til hamingju með daginn - en þennan dag fékk ég hringingu frá Hröbbu sem sagði að pabbi væri dáinn. En þennan laugardag varð hann 85 ára - elsku karlinn.
Á sunnudeginum fórum við fórum í útsöluþorp og keyptum eitthvað smá fyrir börnin. Settumst inn á stað til að kaupa okkur pizzusneiðar, þar inni var kona með 2 börn og horfðu þau dálítið á okkur. Síðan kom í ljós að þau eru íslensk og búa í Umbria, og stelpunni sem var ca. 3 ára fannst mjög skrítið að heyra annað fólk tala íslensku.
Mánudagur fór í sólbað og sundlaugarferð og að pakka saman og ganga frá. Fórum út að borða um kvöldið - Ingi fékk sér svaka steik - geðveikt góð - en við hin fengum okkur bara ítalska margaritu pizzu - sem klikkar aldrei! Um kvöldið fór Erla upp í rúm kom svo allt í einu stökkvandi fram hoppandi og öskrandi - alveg kolvitlaus - ég spurði hvað væri eiginlega að - "það fór fiðrildi í nefið á mér" sagði hún! Ég sagði henni að snýta sér fast - og viti menn - út kom lítið og hvítt fiðrildi fljúgandi - og flaug á næsta vegg.
Á leiðinni til Frakklands var mjög heitt, hiti fór upp í 33°C og að sitja í bíl í þessum hita getur verið hálf drepandi, þannig að við vorum með einhverja glugga opna, keyrandi um hina undurfögru ítölsku náttúru - þegar allt í einu kom fljúgandi inn geitungur - þannig að Erla trylltist - hún er svo ótrúlega mikið hrædd við flugur að það er ekki venjulegt, hún myndi hlaupa fyrir bíl ef fluga kæmi fljúgandi á móti henni.
En geitungurinn flaug út og við af stað aftur - svo vitum við ekki fyrr en Erla brjálast aftur í og segir að geitungurinn hafi stungið hana - við stoppum og skoðum þetta vel - og jú þá hafði annar geitungur laumast undir kjólinn hennar - upp á maga lent þar í klemmu - og stungið hana - ekki er það til að bæta flugufælnina í henni. En hún fékk á sig flugnabitkrem og er alveg í lagi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.