Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
Mona Lisa
7.6.2007 | 22:34
Í dag var fínt veður, skýjað en um 20°hiti. Við fórum á markaðsgötuna hér við hliðina í morgun og keyptum ávexti af bændum - nýbakað brauð og croissant, kaffi o.fl.
Fórum síðan í Louvre safnið - en Sindra er búið að langa mikið til að sjá Mónu Lisu. Þegar við vorum alveg að koma upp að henni - kom vörður og dró Sindra fram fyrir alla þá fullorðnu og lét hann standa beint fyrir framan myndina. Hann var frekar ánægður með það - sem og við hin fyrir hans hönd. Hann sem er 10 ára gengur með ýmsa drauma í maganum - og hlakkar til að skoða og sjá ýmislegt í heiminum - sem mér finnst mjög gaman að. Hann var frekar svekktur í fyrra þegar við náðum ekki að sjá skakka turninn í Pisa - en hann fær að sjá hann þetta árið.
Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í þetta skiptið, þar sem við ætlum að fara að skriða í rúmið - vorum að klára að pakka saman, en við leggjum af stað snemma í fyrramálið, gistum í s-Frakklandi á morgun - rétt hjá Mont Blanc. Þannig að ég blogga ekkert fyrr en á laugardag - þegar við erum komin í húsið á Ítalíu - þ.e.a.s. ef nettenging virkar þar.
En við höfum það öll mjög gott - biðjum að heilsa öllum - Lauja og co.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fréttir af pabba
7.6.2007 | 00:38
Matta sendi mér SMS en pabbi er sem sagt að hressast. Tekið var vefjasýni úr lungunum á honum s.l. föstudag - en ekkert kom út úr því sem er gott. Hann er kominn á 2 manna stofu - og steig í fæturna í gær - eitthvað sem hann hefur ekki gert í þónokkurn tíma. Þetta voru allavega góðar fréttir - en hann er samt talsvert ruglaður. Var farinn að halda að Hrabba og Adda væru báðar búnar að skipta um nafn og farnar í læknisfræði - hann bað mig að kanna málið nánar.
En það er bara dagamunur á honum, hann þekkir okkur og allt hans nánasta - en virðist vera að upplifa gamla atburði - og ruglar þeim dálítið saman við það sem er að gerast í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sól og 25° hiti
6.6.2007 | 21:48
Veðrið leikur við okkur hér í París, sól og 25 stiga hiti - fín gola - þannig að okkur líður mjög vel hérna.
Fórum í Lúxembúrgargarðinn í dag til að njóta lísins, keyptum okkur brauð, croissant - bjór og gos - sátum á stólum og nutum lísins. Andri og Erla fóru aðeins og settust upp í grasbrekku sem var á bak við okkur - en eftir stutta stund komu 2 lögregluþjónar og bentu á að þetta væri ekki æskilegt. Andri spurði hvað löggan hefði gert ef hann hefði neitað að færa sig - "Ég sagði að þeir sem færu ekki eftir lögum og reglum í París væru bara skotnir" - hann trúði ekki mömmu sinni - hún bullar stundum dálítið í honum.
Við röltum um garðinn - Erla var nú orðin frekar þreytt á heimleiðinni - en við sáum skemmtilega búð sem selur Barbapapa vöru - og lofuðum við henni að kíkja í hana á morgun og kaupa eitthvað pínu fyrir hana þar.
Við fórum út að borða í kvöld á afskaplega fallegan stað, hann er frá árinu 1906 - og er í Art Nouveau stíl - og er í dag skráður sem sögulegur minnisvarði. Forréttir og eftirréttir voru hreint út sagt frábærir, nautasteikin var góð - þó ekki stórkostleg, ég fékk mér reyndar nautalund með gæsalifur í búrgundarsósu - hún var mjög góð. Þessi staður var með þeim fallegri sem við höfum farið inn á. Kvöldið var yndislegt. Ég set hér inn slóðina á staðinn : http://www.bouillon-racine.com/en/home/index.html
Ég makaði sólavörn á Erlu áður en við fórum af stað í dag - en gleymdi öðrum - þannig að við Tanja erum aðeins rauðar - en þá er bara að maka á sig After sun og Aloe vera geli. Sindri er strax farinn að taka lit - hann er bara ótrúlegur - um leið og sólin fer að skína þá er hann búinn að taka lit.
Hann er svo ólíkur okkur hinum með svo margt - algjörlega aðdáunarverður í svo mörgu. Ef hann er saddur - þá er hann saddur - þá stoppar hann að borða sama hversu gott það er. Hann er meira að segja farinn að biðja um grænmeti á diskinn sinn!! Ingi hefur nú stundum efast um að hann eigi eitthvað í þessu barni - sérstaklega þegar hann kom með yfirlýsinguna "ÉG HATA KJÖT" - þá vildi Ingi nú bara senda hann í DNA próf !!
Við erum búin að ná góðum tökum á GPS tækinu - og er sú græja að verða góður fjölskylduvinur. Eins gott að passa sig á að stilla á tækinu að maður sé fótgangandi en ekki keyrandi - út af einstefnugötum - það er bara snilld ef maður gleymir að skrá að maður sé fótgangandi - þá eru alls konar einstefnugötur sem tækir segir manni að taka aukakrók út af. Ég hefði ekki fattað það ... enda er Ingi kominn með græjupróf á það.
Núna sitja börnin og spila Yatzy - nema Erla liggur á gólfinu að teikna og lita - hún er reyndar að biðja um að fara í bað - Ingi reddar því.
Við vorum ekki búin að keyra inn í tölvuna disk til að geta keyrt inn myndir úr stóru myndavélinni - þannig að við keyrum bara inn myndir úr litlu vélinni - en það sleppur.
Ég ætla að fara og setja inn nokkrar myndir núna á barnalandssíðuna hennar Erlu.
Heyrði aðeins í Hröbbu áðan - þau eru komin á leiðarenda þreytt og voru að fara að fá sér pizzu.
Sólskinskveðjur til ykkar allra frá ferðafólkinu í París
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekta túristar í París
5.6.2007 | 22:58
Já, við vorum ekta túristar í París í dag. Fórum í bátserð á Signu og upp í Eiffel turninn - alla leið upp í topp. Ég er nú bara hissa á sjálri mér að guggna ekki á því á síðustu stundu - enda er ég afskaplega lofthrædd - miklu meira en í meðallagi - við biðum í röð í einn klukkutíma. Mistur var yfir borginni - en ótrúlegt að horfa yfir. Þvílíkt útsýni.
Á Signu sigldum við - og á bökkum Signu situr fólk hér hér og þar í innilegum faðmlögum og kyssist ofur lengi - fólk á öllum aldri - sem mér fannst gaman að sjá - ekki bara unga fólkið - París er sem sagt borg allra elskenda - ekki bara ungra.
En á einum bakkanum sátu nokkrir karlar saman að drykkju - og síðan vildi svo skemmtilega til að einn þeirra girti niður um sig brókina og dillaði "rassinum" framan í túristana - það lífgaði nú bara upp á - verst að börnin misstu af þessu.
Veður var ótrúlega gott í dag, sól og 27°C hiti - þannig að við vorum léttklædd. Golan í þessari borg bjargar Inga algjörlega - þó svo að þessi hiti sé - þá er ágætis gola og manni líður vel í þessum hita.
Við erum orðin svolítið þreytt eftir daginn, börnin eru að skipta sér í sturtu - síðan í rúmið.
Ingi fór út í markaðsgötuna við hliðina áðan með 3 eldri börnin og þau komu heim með kebab í kvöldmatinn - sem var afskaplega gott.
Á morgun er ætlunin að vakna snemma og nýta daginn, fara og skoða Monu Lisu - og svo ræður bara skapið og veðrið ferðinni.
En við biðjum að heilsa ykkur öllum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jú hann er í vísindaslopp
4.6.2007 | 20:20
Jebb, hann er í vísindaslopp - sögðu börnin yfir sig ánægð þegar þau sáu nágrannan í dag. Hann er mjög "vísindalegur í útliti" grátt og tætt hár út í loftið - en skalla beint uppi á kollinum. Hann minnir okkur á "Back to the Future" vísindamanninn.
Við verðum að reyna að ná mynd inn til hans - það væri virkilega gaman, það er verst að hann býr þarna líka. Gæti verið frekar vandræðalegt ef við fullorðna fólkið lægjum á glugganum hans að taka myndir. Við sendum börnin í það.
En við röltum í bæinn áðan, fórum að skoða Notre Dame kirkjuna að utan og innan og urðum afskaplega hrifin. Mjög gott veður og fórum við eins og bjánar með jakka og regnhlíf í bæinn - við vorum þó ekki þau einu í París sem gerðum það. En jakkinn hékk á töskunni allan daginn og ákveðið að fara ekki með hann aftur.
Við fórum á veitingastað sem heitir "Hippopotamus" og tókum barnamatseðil fyrir börnin, þau fengu 200 gramma kolsteiktan borgara, með frönskum, og smarties-ís á eftir, ásamt drykk með matnum á aðeins 7,90 Evrur. Þau urðu pakksödd - náðu ekki einu sinni að klára.
Við fórum með GPS tækið með okkur til að rata um París eins og innfædd. Gekk það afskaplega vel - nema þegar við vorum á heimleið. Við vorum komin á einhvern fáránlegan stað þegar tækið tilkynnti "KOMIN" - við Ingi horfðumst í augu - (þau voru á stærð við undirskálar í okkur báðum) - og skildum ekkert í þessu helv... rugl tæki - fleygja þessu drasli - en við höfðum matað tækið á röngum upplýsingum um staðsetninguna á íbúðinni.
Börnin voru ekki glöð með okkur en við fengum fína hreyfingu - og þau ættu að sofna snemma eftir þennan aukagöngutúr á heimleiðinni.
Var að setja inn smá af myndum á barnalanssíðuna hennar Erlu. Höum það gott - keyptum okkur brauð eins og er í "Felix" bókinni hennar Erlu og bragðaðist það afskaplega vel.
Biðjum að heilsa öllum -
Ingi - Lauja - og börnin - GPS-arar
Bloggar | Breytt 5.6.2007 kl. 00:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Komin til Parísar !
4.6.2007 | 09:11
Ferðin gekk afskaplega vel, vélin fór á réttum tíma, og vorum meira að segja örlítið á undan áætlun. Á leið úr vélinni og í flugstöðina var "strætó" og Erla sat við hliðina á "Ágústu Evu Erlendsdóttur" sem er betur þekkt sem Silvía Nótt - en Erla fattaði það ekki - skrítið!
Engan tíma tók að ná í töskur - Ingi birtist bara allt í einu með þær allar í einu - þannig að þetta gekk allt eins og í lygasögu.
Við byrjuðum á að sækja lyklana, keyrðum framhjá Eiffel turninum sem krökkunum fannst æði - keyrðum alveg upp við hann og fannst þeim skrítið hvað hann væri ótrúlega stór!
Íbúðin er mjög skemmtileg, á 2 hæðum með öllu sem þarf, uppþvottavél, þvottvél, hárþurrku, sjónvarp, DVD, CD spilara og nettengingu - surprise ! (hvernig gæti ég annars verið að blogga).
Við tókum nesti með okkur, flatköku, hangikjöt, kókómjólk, kaffi og mjólk sem kom sér vel í gærkvöldi og í morgun.
Eigandi íbúðarinnar kom til okkar kl. 10:00 (8:00 að íslenskum tíma) til að fara yfir hvernig hitt og þetta virkaði.
Til að fara inn í íbúðina þurfum við að fara úr húsinu og inn í lítinn garð sem er umkringdur húsum, falleg blóm og jarðarberjaplöntur eru í þessum garði og risastórt tré. Beint á móti okkur er íbúð með stórum gluggum og héldum við að þetta væri vinnustofa listmálara - en á íbúðinni eru mjög stórir gluggar - gardínulausir þannig að við sáum beint inn - við lágum sem sagt ekki á gluggunum að reyna að finna út hvernig fólk væri þarna!
En þegar eigandinn kom áðan spurðumst við fyrir um nágrannana, sem að hennar sögn er mjög fínir - meðal annars er brjálaður vísindamaður í íbúðinni beint á móti okkur (ekki franskur listmálari) - hann vinnur á hvaða tíma sólahrings sem er - og hann heldur að hann sé að vinna fyrir NASA, klikkaður gaur en besta skinn. (Ef maður vaknar á nóttunni þá ætti maður að kíkja út um gluggann til að athuga hvort hann sé að vinna).
Við ætum að fara að hafa okkur til - kíkja út á mannlífið.
Úti er rigning en hlýtt, þurfum sennilega að kaupa reglhlíf.
En ég blogga e.t.v. meira á eftir - allir biðja að heilsa öllum sem þetta lesa.
Við ætlum síðan að reyna að setja inn myndir á síðuna hennar Erlu - þetta er slóðin á síðuna hennar: http://barnaland.is/barn/14564
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)