Smá hérna.......

Letibloggarinn mikli - þó ekki sá allralatasti.

Sindri minn átti afmæli um síðustu helgi - yndislegi strákurinn minn - verður strákaboð heima næsta laugardag - vinir hans búnir að tryggja það - og að það verði heimatilbúnar veitingar....... þeir vilja ekki Dominospizzur..... heldur skemmtilega - öðruvísi heimatilbúnar veitingar! 

Ég er búin að vera með einhverja fj..... augnsýkingu - með rauð og sokkin augu - væri hægt að halda að ég væri búin að liggja í drykkju í marga daga - hic....... dæli áburði í augun - og er svei mér þá - aðeins að skána...... ástæða þessa ókunn- gæti þó stafað af augnbaði upp úr spritti...... jebb.... snilldartaktar hjá mér - ákvað s.l. föstudag að setja spritt á hendurnar á mér eftir klósettferð hér í vinnunni - einhver stífla var í pumpunni - og sprautaðist beina leið upp í augun á mér....... þegar ég kom út af klósettinu - hefði verið hægt að halda að þar hefði ég setið hágrenjandi og drekkandi......... - ilmandi af spritt - og afar rauðeygð........     

Sumarið hefur liðið allt of fljótt - skil´ett´ekki....... við ferðuðumst um Vestfirði í ágætu veðri - vorum í sumarbústað tengdó í viku - í afslöppun og leti - ættarmót á Galtalæk - þar sem rigndi eldi og brennisteini aðaldaginn - við erum búin að fara í veiði - veiðidella hefur heltekið suma fjölskyldumeðlimi........ ég næ ekki að veiða neitt nema drullu - maður skellir því ekki á grillið - Ingi fékk veiðidellu - en verður að hafa mig með - þar sem hann hefur 10 þumalputta....... - einhver þarf að gera hnútana - og tæla fiskana að landi - ætli ég sé ekki lukkudýrið hans Inga :)

Vinnan alltaf á sínum stað - óléttan virðist vera að ganga hér á svæðinu - en - hún nær ekki í skottið á mér...... guð....... ég myndi ekki nenna því - hef  5 x orðið ólétt - og á í dag 4 yndisleg og heilbrigð börn - það er nóg fyrir mig !

Við systur ætlum bráðlega í skvísuferð út fyrir bæinn - nauðsynlegt aðeins að leyfa sér að smella sér í "húsmæðraorlof" - með kokteilablöndur undir arminum - og danstónlist af bestu gerð - ásamt smá kjaftasögum í pokahorninu! - Nauðsynlegt!

Gott í bili - kveðja frá þessari "ógeðslegamikiðbissífrúLauju"


Söngtextar

Já - nú get ég sko farið að gleðja mína nánustu - fann síðu sem inniheldur texta við mööööörg lög -

slóðin er....... http://www.lyricstime.com

algjör snilld


Í dag hefði mamma orðið 75 ára

Já, í dag er afmælisdagurinn hennar mömmu, hefði hún lifað væri hún að halda upp á 75 ára afmælið sitt í dag.

Undarlegt að hún skuli vera farin úr lífi manns - jú - það er skrítið að vera munaðarlaus - eins og Bidda spurði mig að þegar hún var dýdáin.  Þetta venst þó - en oft er manni hugsað til hennar - en eins og heilsan var orðin hjá henni - þá var lífið ekki orðinn neinn dans á rósum. 

Þó finnst mér hún alls ekki vera farin - aðeins að ég hafi ekki heimsótt hana lengi - og eigi eftir að kíkja til hennar einn daginn - sem er gott.  Ligg ekki í þunglyndi eða gráti yfir að hún skuli vera farin - ekki það að skilja að ég sakni hennar ekki - því það geri ég svo sannarlega - en heilsan var ekki upp á það marga fiska orðin hjá henni að hefði verið gaman að lifa þannig í nokkur ár í viðbót.  Þannig er nú það.

Ætli þau pabbi séu ekki að fá sér kjötsúpu eða eitthvað annað góðgæti í nýju heimkynnum sínum - e.t.v. farin í heimsreisu - hver veit !   ........allavega trúir maður því að þeim líð vel á nýjum stað - og séu að gera skemmtilega hluti saman.


16. júní

Í dag er 88 ára afmælisdagurinn hans pabba- einnig eru 3 ár í dag síðan hann dó - skelfing líður tíminn hratt.

Þó pabbi og mamma séu bæði dáin - finnst mér það ennþá eitthvað svo óraunverulegt - finnst aðeins eins og ég hafi ekki heimsótt þau lengi.  Að sjálfsögðu saknar maður þess að heyra ekki eða sjá þau - og einnig að hafa ekki munað hinar ýmsu sögur sem þau sögðu - og að spyrja þau út í eitt og annað í þeirra lífi.

T.d. hef ég aðeins verið að glugga í ýmsar minningar sem pabbi skrifaði - og myndi ég svo gjarnan vilja fá að vita nánar um eitt og annað.  En hann var svo sem ekkert að upplýsa mann um líf sitt á árunum frá því hann var strákur - þar til hann og mamma tóku saman - og virðist mér það hafa verið ansi erfitt og stormasamt á köflum.  (Því miður skrifaði mamma ekki niður neinar endurminningar - sem hefði verið svo gaman að fá að lesa).

 


Sumarfrí....... vííí.......

Það er alveg að detta inn.  Ætlum að skella okkur á Vestfirði - ég fékk hús á Súðavík í gegnum VR og verðum við þar í viku - 170 fm hús - þannig að það ætti að vera rúmt um okkur.  Ég var að kíkja á veðurspána - sem er í augnablikinu ekkert agalega spennandi - skýjað og rigning Errm - en við látum það ekki hafa áhrif á okkur. 

Skoðum okkur um á svæðinu - ýmislegt spennandi sem er hægt að sjá og skoða - best að fara að athuga veiðigræjurnar ef maður myndi ákveða að veiða eitthvað í soðið.  Fékk leiðbeiningar í fyrra frá vinnufélaga - hvert væri gaman að kíkja í veiði - AAAAAAAlveg ókeypis !  Held að maður verði að slá til.

Ég er búin að finna oggu-pínulitla sundlaug í Mjóafirði sem stendur eiginlega ofan í fjörunni - börnunum líst misvel á þessa laug - lítill kofi - þar sem hægt er að skipta um föt - allir í einu.  Eins og segir í lýsingu á þessum stað "þá situr maður í snarpheitri laug - og horfist í augu við selina í sjónum" - hljómar ekki leiðinlega.

Mig langar til að kíkja á Djúpuvík - ég man eftir að hafa séð myndina "Blóðrautt sólarlag" sem stelpa - myndin tekin upp þar - og í minningunni er þetta frekar óhugnanlegur staður - væri gaman að sjá með eigin augum.  Við verðum að kíkja á Ísafjörð sem er í 20 km. fjarlægð - fara í ríkið þar ***glugg***glugg**** - nei ég held ekki - nema ef mann skyldi langa í einn öllara með heimabakaðri pizzu - yfir HM leikjum - sem verður litið á með öðru auganu.

Málið er að njóta þess að vera í fríi með börnunum - skoða eitthvað spennandi - liggja yfir spilum - í boltaleikjum - badminton - og vonandi að sitja með kaffibolla í smá sólbaði - þetta veður ljúft.

Um síðustu helgi var stelpudjamm í vinnunni - í fyrirtækinu starfa 170 manns - þar af erum við stelpurnar aðeins 12....... var mjög skemmtilegt - kokteilar - matur - hvítvín - bjór - tónlist - drykkjuleikur en þar kom ýmislegt fram.... hverjar hafa farið í 3-some - sofið hjá stelpu - gert það í bíó - o.fl. ........ég var sú eina sem hefur "gert það á smurstöð" - híhí!   Mjög skemmtilegt kvöld - og vorum við allar sammála um að við þyrftum að endurtaka þetta aftur - þó ekki alveg strax.

 


Morgundagurinn......

Jamm....... verða ekki "Júró"- partý út um allt ásamt kosningapartýum - það verður forvitninlegt að sjá hvaða fylgi "Georg Bjarnfreðarson" fær....... kæmi mér ekki á óvart þó hann fái talsvert fylgi - verður forvitnilegt að fylgjast með því.

Ég er svo sem enginn sérstakur aðdáandi íslenska lagsins - en hún syngur mjög vel - og auðvitað er skemmtilegra að vera með á aðalkvöldinu - ætli hún endi ekki á topp 5.......  ....yfir í annað - skil ekki hvað Hollendingar voru að hugsa - mér fannst lagið HRÆÐILEGA leiðinlegt - enda er ég víst ekkert "Geirmundar-sveiflu-fan"   ....á svo sem ekkert algjört uppáhalds lag - en þau lög sem heilla mig helst af þeim sem taka þátt eru frá Frakklandi, Þýskalandi, Danmörku og Rúmeníu - tyrkneska lagið er einnig fínt.

Við systur og familíur ætlum að hittast - grilla saman - og horfa á keppnina - nema e.t.v. mágur minn sem er í framboði - spurning hvort hann verði með okkur - eða annars staðar.......

Tanja og Sindri eru á fullu í prófum þessa daga - frekar pirruð yfir að þurfa að hanga inni í sólinni - þegar margir skólar eru búnir í prófum - og þeir krakkar njóta lífsins.  En þau eru afskaplega dugleg þessar elskur - liggja yfir bókunum - og meira að segja voru bekkjarfélagar Tönju að hringja í hana fyrir stærðfræðiprófið - og biðja hana að útskýra eitt og annað fyrir sér !   ....hún er búin að bæta sig afar mikið þetta árið í sambandi við lærdóm  - sem er frábært.  Tanja er á fullu í ökutímum þessa dagana - og finnst það algjört æði - ökukennarinn hælir henni út og inn - og kemur hún úr hverjum ökutíma svífandi á bleiku skýi. 

Alltaf nóg að gera í vinnunni - sem er gott mál - alltaf einhverjar breytingar í gangi - og talsverð vinna alltaf hjá okkur skvísum í sambandi við það.  Mér finnst æðislegt að vera aftur komin í Borgartúnið - ef eitthvað þarf að útrétta - þá er nálægð við allt hér á þessum stað.

Síðan er spurning hvað gerist ef Ísland lendir í fyrsta sæti....... verða allir í gleðivímu - eða í sjokki yfir að þurfa að halda keppnina að ári............ jæja - skítt með allt - skál !

.......skálum einnig fyrir "allskonar fyrir aumingja"........  - hmmmmmmm....... skemmtilegt kosningaloforð!

 


Lítil gelgja og spítukerling

Erla mín er komin með smá gelgju-takta - spurning hvort hún smitist af eldri fjölskyldumeðlimum....... það er allt svo "vandró" - þessa dagana - "Mamma - ef ég fer í þessu í skólann - þá er það svo vandró!"  -  ef hún er með svona nesti - þá er það svo vandró - ef hún fer út að leika í hinu eða þessu - þá er það svo vandró - en það er nú bara krúttlegt InLove

Maður hefur nú sjálfur í gegnum árin - lent í mjög "vandró" mómentum - hlutum sem maður er ekki að deila með öðrum - en sínum allra- allra nánustu - bæði hlutum sem eru í senn afskaplega vandræðalegir - en ógeðslega fyndnir - og uppákomum sem eru svo vandræðalegar - að helst vildi maður þá - að jörðin myndi opnast og gleypa mann!

Ég er föst í hálsinum - búin að vera svona síðan á föstudag - næ varla að hreyfa hausinn - ekki að horfa upp - eða til hliðar - og varla niður - frekar óþægilegt og asnalegt - er eins og vélmenni -eða spítukerling...... verið var að kynna nýjan starfsmann fyrir okkur áðan - við skvísur stóðum upp og heilsuðum - ég eins og vélmenni - stíf - eins og ég væri með prik í afturendanum - hahaha!!!!!

Í dag er aldarfjórðungur síðan ég kyssti hann Inga minn Heart í fyrsta skipti - f á r á n l e g t....... hvað tíminn er fljótur að líða - manni finnst maður alltaf vera jafn ungur í anda og útliti - kannski það sé merki um að ég þurfi að láta athuga í mér sjónina LoL

Andri er búinn í skólanum - Rest fer að byrja í prófatörn - Tanja mín er búin að bæta sig svo mikið í námi þennan vetur - sem er svo mikils virði fyrir hana - stendur sig eins og hetja - leggur mikið á sig - og mun það hjálpa henni seinna meir.  Hún er búin að sækja um í framhaldsskóla - og hlakkar mikið til ef hún kemst inn þar sem hún merkti við sem fyrsta valkost.

 


Er þetta snilld eða SNILLD - verðið að hlusta......

Minnir mig á Þýskaland....... og Benz Sprinter extra langan.....

Þetta er yndisleg snilld LoL


Gærkvöldið..... og fleira

Við Ingi skelltum okkur í bíó í gærkvöldi, sáum "Loftkastalinn sem hrundi", við vorum búin að sjá 2 fyrri myndirnar og urðum við engan vegin fyrir vonbrigðum með þessa.  Fórum í "lúxus-sal" - bjóst ég svo sem alveg eins við að hrjóta - í þessum þægilegu sætum LoL  .....það gerðist þó ekki.  Öskraði ég alveg upp yfir mig í einu atriðinu.......... held ég þó að öllum hafi brugðið á því andartaki - yfir myndinni - ekki mér Joyful  Ég væri þó til í að geta keypt kaffi í bíóhúsunum - fæst e.t.v. á barnum - tékkaði ég það ekki.   ....en það væri ósköp ljúft að sitja með gott kaffi og njóta myndarinnar.

Allt er að smella saman fyrir sunnudaginn - ég er sallaróleg yfir þessu öllu saman - sem og rest af fjölskyldu - ég er ekki þessi stressaða týpa - þetta reddast alltaf - og yfirleitt með stæl - borgar sig ekki að fara yfirum af stressi - og smita alla í kringum í sig Kissing  ....þá kemur maður engu í verk.  Ég fór í klippingu og litun í gær - ótrúleg ánægð - mjög stutthærð - og fíla það gríðarlega vel - öll  börnin mín eru einnig búin að fara í fermingarklippingu - sem og Ingi - fáránlegur unglingur þar á ferð - varla kominn með eitt grátt hár........ Smile  ......annað en ég - gamlan hans.... hmmmm.

Ég ætla að vera í fríi á föstudag og mánudag í vinnunni - klára það sem þarf að klára - og eiga mánudaginn í leti - verður ljúft.   

Ágætisvinnutörn er síðan framundan hjá mér - breytingar í vinnunni - og mikil vinna hjá okkur skvísum samhliða því - en það verður bara gaman.

Ætla að setja inn mynd af fermingarstráknum mínum yndislega - hann er afar rólegur yfir þessu - en þó mjög spenntur - með ákveðnar hugmyndir - góðan smekk og álit á þessu öllu saman.

Sindri fermingarstrákur


Sindra ferming og ljóð..... um list

Tíminn flýgur, og það er heldur betur farið að styttast í ferminguna hans Sindra.  Allt er að skríða saman.  Þetta reddast allt.  Eitt og annað er þó eftir - en ekkert stress í gangi - hann er nú líka ofurrólegur yfir þessu hann Sindri minn.

Ég fer bráðum að flytja aftur á minn gamla vinnustað - úr Urðarhvarfi og aftur niður í Borgartún - ég verð að segja að ég hlakka til að fara aftur í Borgartúnið, þó svo að sé styttra í dag í vinnuna - þá er svo margt annað sem mér finnst jákvæðara við að flytja Smile

Ég var að taka til í skúffunni minni í morgun - henda gömlum og úreltum upplýsingum, rakst á blað sem gefið var út fyrir 3 árum, í því var ljóð eftir einn starfsmann sem heitir Pétur Arnar Kristinsson, var hann starfsmaður á lager, en stundar nú nám við arkitektúr í París.  Þetta er fínt ljóð hjá þesum strák og ákvað ég að smella því hér inn.  Hann samdi það á sínum tíma þegar var þemavika hjá okkur og þemað var "list" - og ljóðið heitir því fumlega nafni "List".

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

List er leit að sjálfum sér

List er leit að svörum

List getur verið alls óþekkt

- eða á allra vörum

-

List getur verið litaklessa

List getur birst í ljóði

List getur verið lagasmíð

sem sungin er í hljóði

-

List er að vita hvað skal segja

- list er málglöðum að þegja

List er fósturlandsins Freyja

list er að lifa - list er að deyja

-

List er það að segja til

um hvað sé list - ég reyna vil

þó lítið viti víst ég skil

að það er list að vera til

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Er ekki allt lífið list - allavega fannst mér þetta ljóð vera fínt hjá honum.

Læt þetta duga núna - best að halda áfram að vinna Halo


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband